Þann 6. febrúar ár hvert fagna leikskólar landsins Degi leikskólans en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Í tilefni af Degi leikskólans er ástæða til að benda á nokkrar staðreyndir sem sýna mikilvægi þess að búa sem best að málefnum leikskólans. Fyrstu ár ævinnar er grunnur lagður að öllum þroska sem á eftir kemur. Breytingarnar á þroska barna á leikskólaaldri eru meiri en á nokkrum öðrum tíma síðar á lífsleiðinni. Framfarir í hreyfiþroska, málþroska og tilfinningaþroska haldast í hendur við heilaþroska og annan líkamlegan þroska. Nýlegar langtímasamanburðarrannsóknir hafa endurtekið sýnt fram á að vel skipulögð leikskólamenntun hefur margvísleg jákvæð áhrif á líf fólks til langframa. Má þar nefna betri námsárangur og minni líkur á hegðunarerfiðleikum eða sértækum námsstuðningi síðar meir. Rannsóknir sem rýnt hafa í kostnað við leikskólamenntun sýna að hver króna sem lögð er í leikskólamenntun skilar sér ríkulega til baka til samfélagsins.