Vináttuverkefni Barnaheilla

Vináttuverkefnið 

Vináttuverkefnið Blær er forvarnarefni sem ætlað er að stuðla að jákvæðum samskiptum, góðum skólabrag og koma í veg fyrir einelti. Markmið verkefnisins er að tryggja börnum umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast. 

Það er á ábyrgð fullorðna fólksins að búa börnum þannig umhverfi og því er námsefni sem þetta góð viðbót við áherslur okkar í Garðaseli um gæði í samskiptum og vellíðan allra. 

Markmið verkefnisins er að

  • koma í veg fyrir að jarðvegur fyrir einelti skapist
  • tryggja að í hverjum barnahópi sé til staðar góður félagsandi, góð skólamenning og samkennd
  • börnin eigi eitthvað sameiginlegt og að hver og einn geti alltaf reynst góður félagi
  • tryggja að borin sé virðing fyrir margbreytileikanum 
  • vera góðar fyrirmyndir í orði og verki 

Vináttuverkefnið er gefið út fyrir börn 0 -8 ára og er þrískipt eftir aldri barnanna. Námsefnið byggir á áströlsku efni, Better Buddies og er notað í mörgum löndum. Barnaheill - Save the children á Íslandi framleiðir efnið og gefur út. Barnasáttmáli Sameinuðuþjóðanna hefur verið leiðarljós í allri þróun verkefnisins. 

Námsefni leikskólanna er tvískipt ( 0 -3 ára / 3-6 ára ) og kemur í veglegum töskum með fjölbreyttu námsefni, myndaspjöldum, sögum og tónlist. Í töskunni er bangsinn Blær ( stór) og er hann táknmynd vináttu og samhyggðar og minnir okkur á okkar góðu gildi alla daga. Við upphaf skólagöngu sinnar fær hvert barn lítinn Blæ að gjöf sem er eign barnsins og það tekur hann með sér þegar skólagöngu lýkur í leikskólanum. Litli Blær er notaður í kennslu/ samverustundum, er vinur barnanna og huggun í dagsins önn. 

Gildi vináttunnar eru

  • Umbyrðarlyndi - að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og sýna öllum virðingu
  • Virðing - að viðurkenna og virða alla í hópnum og vera góður félagi
  • Umhyggja - að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi
  • Hugrekki -að hafa hugrekki til að bregðast við órétti og geta sett mörk. Að vera góður félagi og rétta öðrum hjálparhönd

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á Vináttuverkefninu sýna fram á fjölmarga kosti þessarar nálgunar, s.s.

  • umhyggjusamari börn 
  • auking þekking og vitund kennara og foreldra um uppeldislegt gildi þess að kenna samskipti 
  • börn öðlast kjark til að bregðast við, hughreysta félaga sína og sýna frumkvæði í að stíga fram 
  • aukin hæfileiki barna til að setja mörk fyrir sig og aðra - segja stopp
  • starfsfólk fær nýtt sjónarhorn á mikilvægi samskipta barna og hafa áhrif á þau með markvissum hætti

Heimasíða Barnaheilla - Vináttuverkefni