Rauður dagur, leiksýning og jólaball

Miðvikudaginn 18. desember voru litlu jólin í leikskólanum. Í tilefni dagsins klæddust flestir rauðum fötum og setti það mikinn svip á daginn. Fyrir hádegi var jólaball fyrir börnin á Lóni, Lind og Hóli og börnin æfðu sig í að dansa í kringum jólatréð. Þau kunnu töluvert af jólalögunum og stóðu sig mjög vel.

Eftir hádegi kom hún Skjóða sem er systir jólasveinanna í heimsókn og sagði sögur, söng og dansaði fyrir börnin og síðan komu tveir jólasveinar sem dönsuðu og sungu með börnunum undir styrkri stjórn Skjóðu. Á eftir fengu allir mandarínu og gátu spjallað við jólasveinana þau sem treystu sér til.

Þetta var ánægjulegur dagur í leikskólanum með skemmtilegri tilbreytingu en Grýlubörnin voru í boði foreldrafélagsins.