Takmarkanir barna í umferðinni og góðar fyrirmyndir

Börn á leikskólaaldri eru til alls líkleg í umferðinni og því afar mikilvægt að vel sé hugað að öryggi þeirra. Þau mega aldrei vera ein í umferðinni án umsjónar og eftirlits fullorðinna. Það er á ábyrgð þeirra sem eldri eru að búa þau sem best undir þátttöku í umferð, jafnt sem farþega í bíl og gangandi vegfarendur.

Það gerum við m.a. með því að sjá til þess að þau noti traustan og góðan öryggisbúnað, með markvissri fræðslu og leiðsögn. Þar á meðal er nauðsynlegt að fá þau til að bera virðingu fyrir umferðinni og þeim hættum sem henni fylgja. Síðast en ekki síst skiptir miklu máli að foreldrar og aðrir fullorðnir séu góðar fyrirmyndir.

Það sem takmarkar börn í umferðinni :

  • börn eru smávaxin og hafa ekki jafngóða yfirsýn og fullorðnir. Í umferðinni er þýðingarmikið að sjá vel í kringum sig og sjást.
  • börn eiga erfitt með að meta fjarlægð, hraða og stærð bíla og úr hvaða átt hljóð berast.
  • börn skilja oft ekki mörg orð og orðatiltæki sem notuð eru um umferð og gera sér ekki grein fyrir þeim atriðum sem mikilvægust eru.
  • börn eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og átta sig á hvað ökumenn ætla að gera.
  • börn fá oft skyndihugdettur sem þau framkvæma á stundinni. Viðbrögð þeirra byggjast fremur á fljótfærni en skynsemi.
  • börn sjá einungis smáatriðin í umferðinni en ekki aðstæður eða umhverfi í heild.
  • börn eiga oft erfitt með að einbeita sér nema að einu atriði í einu og aðeins í stutta stund í einu.