Eins og margir vita hefur bygging nýs leikskóla fyrir Garðasel staðið yfir í nokkurn tíma. Núverandi Garðasel er þriggja deilda skóli en gert er ráð fyrir að þegar við flytjum í nýja skólann verði hann sex deilda. Hluti skólans átti að vera tilbúinn í haust en þar sem það gekk ekki eftir og búið var að innrita fleiri börn en gátu verið í Garðaseli fengum við að nýta húsnæði skóladagvistar Brekkubæjarskóla, á Þekjunni á meðan beðið var eftir að klára hluta húsnæðisins. Við kunnum Brekkubæjarskóla bestu þakkir fyrir lánið á húsnæðinu og Teigaseli fyrir góðar móttökur á leikskólalóð.
Í dag 28. október náðum við þeim gleðilega áfanga að flytja elstu börnin í hluta nýbyggingarinnar en klárað var að ganga frá tveimur deildum leikskólans og stórum hluta leikskólalóðarinnar í þessari viku.
Vel hefur tekist til með hönnun og er húsnæðið bjart og fallegt. Vonandi mun öllum, bæði börnum og starfsfólki líða þar vel í framtíðinni.
Hér sjáið þið svipmyndir frá fyrsta skóladegi Víkara á nýjum stað.